Íslenska landsliðið heimsækir Kósovó í Pristina í kvöld og það er uppselt á leikinn og um fjórtán þúsund Kósóvar sem munu styðja heimamenn áfram. Það er í kvöld sem vegferð íslenska landsliðsins hefst formlega undir stjórn Arnars sem hefur haft í nægu að snúast með liðið á Spáni undanfarna daga því tíminn sem liðið hefur saman fram að fyrsta leik hefur verið knappur.
„Fiðringurinn er kominn, sérstaklega núna þegar að við erum lentir í Kósovó, mættir hingað á völlinn og búnir að kíkja á grasið. Það er óneitanlega kominn mikill spenningur í bæði mig og hópinn. Undirbúningurinn hefur verið góður, ég er mjög ánægður með þessa tvo til þrjá daga sem við höfum haft saman. Mikið af upplýsingum, langir fundir og góðar æfingar. Það er allt klárt.“
Þetta eru aðeins nokkrir dagar sem þið hafið saman fram að þessum fyrsta leik. Hverju hefurðu þurft að koma á framfæri á þessum dögum, hverjar eru áherslurnar?
„Ég þarf bara að koma öllu frá mér. Reyni að koma inn fimm árum af upplýsingum í þrjá fundi og tvær æfingar. Strákarnir hafa verið frábærir í þessari stöðu. Það er erfitt að hafa svona knappan tíma til að koma inn miklum upplýsingum en við verðum einhvers staðar að byrja. Þetta er núllpunktur núna. Við byrjum á þessu. Menn gera fullt af mistökum í leiknum gegn Kósovó í kvöld og læra af því, við höldum svo áfram og munum gera mistök í júní glugganum en svo verðum við klárir í september þegar að undankeppni HM hefst.“
En hvað vill Arnar sjá í leik liðsins í kvöld?
„Ég vil sjá að það sé ljós eftir leikinn að við getum svo haldið áfram í júní gluggann, að það verði framfarir og að við höfum séð eitthvað DNA, einhverja heildarmynd og byggjum svo ofan á það. Auðvitað viljum við vinna leikinn, engin spurning. Viljum komast áfram í þessu tveggja leikja einvígi. Þetta er ekki einn leikur og svo búið. Hvað þýðir að ná í góð úrslit í í þessum fyrri leik? Kannski er jafntefli góð úrslit, auðvitað vil ég vinna en ég vil samt ekki vinna á kostnað þess að það verði engar framfarir. Þá á ég við að þetta verð einhver heppnissigur og að við getum ekki tekið neitt með okkur í næsta leik. Ég er svolítið að horfa í sterka frammistöðu í þessum fyrri leik gegn Kósovó, að strákarnir séu nógu hugaðir til að reyna framfylgja því sem við höfum gert á æfingum og fundum hingað til.“
Bein útsending og opin dagskrá hefst frá leik Kósovó og Íslands á Stöð 2 Sport klukkan korter í átta í kvöld.