Innlent

Jón Björn tekinn við af Heiðu Björgu

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Björn Hákonarson, nýr formaður Sambandsins og Margrét Sanders, nýr varaformaður.
Jón Björn Hákonarson, nýr formaður Sambandsins og Margrét Sanders, nýr varaformaður. Samband

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð, hefur tekið við sem nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann var kjörinn á fundi stjórnar Sambandsins í kjölfar landsþings í g´r.

Jón Björn tekur við embættinu af Heiðu Björgu Hilmisdóttur, sem tók við embætti borgarstjóra Reykjavíkur í síðasta mánuði. Jón Björn var áður varaformaður Sambandsins frá árinu 2022.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að Margrét Sanders, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, hafi verið kjörinn varaformaður Sambandsins á fundinum í gær, en hún hefur setið í stjórn síðan árið 2022.

Ennfremur segir að Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, komi nýr inn í stjórn í stað Heiðu Bjargar og Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, komi inn í stað Guðmundar Ara Sigurjónssonar sem sagði sig úr stjórn í kjölfar kjörs til Alþingis. Þá kemur Hildur Rós Guðbjargardóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði inn sem varamaður Önnu Sigríðar í stjórnina og Skúli Helgason, borgarfulltrúi í Reykjavík, sem varamaður Hjálmars.

Eftir að Heiða Björg tók við embætti borgarstjóra var hún lengi að íhuga hvort hún hugðist hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún tilkynnti þó á fimmtudaginn í síðustu viku að hún myndi láta af stöðunni.  


Tengdar fréttir

Heiða Björg verður borgarstjóri

Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn verður næsti borgarstjóri í Reykjavík. Heimildir fréttastofu herma þetta.

Heiða Björg hættir sem formaður SÍS

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri ætlar að hætta sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Laun hennar vöktu mikil viðbörgð ásamt ákvörðun hennar í kjaradeilu kennara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×