Enski boltinn

„Ég veit að hann verður ekki með okkur á næsta tíma­bili“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Justin Kluivert er viss um Dean Huijsen verði ekki liðsfélagi hans hjá Bournemouth á næsta tímabili.
Justin Kluivert er viss um Dean Huijsen verði ekki liðsfélagi hans hjá Bournemouth á næsta tímabili. Joris Verwijst/BSR Agency/Getty Images

Dean Huijsen átti frábæran fyrsta leik í spænsku landsliðstreyjunni gegn Hollandi. Justin Kluivert, andstæðingur hans í gær en liðsfélagi hjá Bournemouth, segist viss um að Huijsen sé á förum frá félaginu í sumar.

Huijsen fæddist í Hollandi en flutti til Spánar aðeins fimm ára gamall og kaus að spila fyrir spænska landsliðið.

Þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára gamall hefur hann spilað stórt hlutverk hjá Bournemouth á tímabilinu og var kallaður í sitt fyrsta landsliðverkefni þegar Inigo Martinez datt út úr hópnum vegna meiðsla.

Í fyrri leiknum spilaði hann rúman hálfleik eftir að Pau Cubarsí fór meiddur út af, í gær spilaði hann svo allan framlengdan leikinn. Einvígið endaði 3-3 og Spánn fór áfram með 5-4 sigri í vítaspyrnukeppni.

Huijsen átti stoðsendinguna í þriðja marki Spánar þegar hann gaf langan bolta yfir vörnina á Lamine Yamal sem kláraði færið. 

Sjö sinnum hreinsaði hann boltann úr hættulegri og einu sinni kom hann í veg fyrir skot sem stefndi að marki, engum leikmanni Hollands tókst að sóla sig framhjá honum, á 120 mínútum.

„Ég veit að hann verður ekki með okkur á næsta tímabili“ sagði liðsfélagi hans hjá Bournemouth, Justin Kluivert, eftir leik.

Kluivert og Huijsen eru liðsfélagar hjá Bournemouth. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

„Hann er frábær viðbót fyrir spænskan fótbolta. Hann lítur út fyrir að hafa spilað á hæsta getustigi í mörg ár. Hann passar mjög vel inn í hópinn, bæði sem leikmaður en líka sem manneskja“ sagði spænski landsliðsþjálfarinn Luis de la Fuente, sem hefur þó áður sagt að hann stefni á að halda tryggð við leikmennina sem voru í landsliðshópnum þegar Spánn varð Evrópumeistari síðasta sumar.

Fjöldi stórliða eru sögð fylgjast með leikmanninum fyrir félagaskiptagluggann sem opnast í sumar. Liverpool hefur verið nefnt í því samhengi, þar sem Virgil Van Dijk hefur ekki enn skrifað undir samning og gæti verið á förum. Real Madrid er einnig sagt áhugasamt, liðið hefur glímt við mikil meiðsli í varnarlínunni á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×