Erlent

Ó­víst að greint verði frá niður­stöðum við­ræðna í Sádi Arabíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríska sendinefndin hefur átt fundi með Úkraínumönnum og Rússum í Sádi Arabíu, en í sitt hvoru lagi.
Bandaríska sendinefndin hefur átt fundi með Úkraínumönnum og Rússum í Sádi Arabíu, en í sitt hvoru lagi. epa/Sergey Dolzhenko

Nokkur óvissa er uppi með það hvort uppljóstrað verður um niðurstöður viðræðna Bandaríkjamanna og Rússa í Ríad í Sádi Arabíu, þar sem staðan í Úkraínu var til umræðu og möglegt samkomulag um sjóumferð á Svartahafi.

Greint hafði verið frá því að sameiginlegrar yfirlýsingar væri að vænta í morgun en Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sagði síðar að ekkert yrði gefið upp um niðurstöður í bili.

Peskov sagði aðila nú liggja yfir þeim og þar sem um væri að ræða tæknilegar útfærslur yrðu þær ekki gerðar opinberar. Þá sagið hann engar áætlanir uppi um annað samtal milli Vladimír Pútín Rússlandsforseta og Donald Trump Bandaríkjaforseta, né heldur hefði verið rætt að hefja beinar viðræður við Úkraínu.

Bandaríkjamenn hafa fundið með Rússum og Úkraínumönnum í Ríad, síðast nú í morgun. AFP hefur eftir heimildarmanni innan sendinefndarinnar frá Kænugarði að upplýst verði um atriði síðar.

Ef marka má það sem menn hafa gefið upp við fjölmiðla er langur vegur fyrir höndum hvað varðar varanlegt vopnahlé í Úkraínu. Samningaviðræðurnar núna virðast hafa snúið aðallega að Svartahafi.

Vladimir Chizhov, varaformaður varnarmálanefndar efri deildar rússneska þingsins, gerði því skóna fyrir hádegi að hætt hefði verið við að gefa út sameiginlega yfirlýsingu í morgun vegna „afstöðu Úkraínu“, sem væri „dæmigert og einkennandi“.

Þess ber þó að geta að Úkraínumenn hafa sýnt mun meiri samningsvilja en Rússar og Pútín ítrekað að margt þurfi að ræða og útfæra og Úkraínumenn að gefa verulega eftir ef samkomulag á að nást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×