Enski boltinn

Rekinn fyrir að vera í sam­bandi með leik­manni en vill annað tæki­færi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Willie Kirk hefur verið atvinnulaus síðasta árið, eða síðan hann var rekinn frá Leicester City.
Willie Kirk hefur verið atvinnulaus síðasta árið, eða síðan hann var rekinn frá Leicester City. getty/Leicester City

Willie Kirk, sem var rekinn frá Leicester City eftir að hafa viðurkennt að eiga í ástarsambandi með leikmanni, vill fá annað tækifæri.

Kirk var látinn fara frá Leicester fyrir ári og hefur ekki starfað við þjálfun síðan þá. Í viðtali við BBC segist hann hafa sótt um öll störf sem í boði hafa verið í efstu tveimur deildum kvennaboltans en ekki verið boðaður í eitt viðtal.

Kirk segist vera meðvitaður um að hann hafi gert mistök hjá Leicester en honum líði eins og hann sé nánast brennimerktur.

„Í stóra samhenginu framdi ég ekki alvarlegan glæp. Ég fékk engan fangelsisdóm en mér líður þannig,“ sagði Kirk.

Hann hefur starfað lengi í kvennaboltanum og vill ólmur komast í annað starf.

„Ég hef gert nóg í bransanum til að verðskulda annað tækifæri en ég ákveð það ekki. Ég þarf að halda áfram að gera það sem ég er að gera. Halda áfram að sækja um störf og vinna í sjálfum mér. Þetta er pirrandi en líka skiljanlegt,“ sagði Kirk sem náði góðum árangri með Leicester og kom liðinu meðal annars í bikarúrslit.

Kirk var upphaflega settur til hliðar hjá Leicester 8. mars 2024 eftir að kvörtun barst vegna sambands hans við leikmann liðsins. Eftir innanhúss rannsókn hjá Leicester var Kirk svo rekinn 28. mars.

Sambönd leikmanna og þjálfara eru ekki ólögleg en hvert félag í ensku kvennadeildinni er með sérstakar reglur um slíkt.

Hinn 46 ára Kirk og leikmaðurinn eru enn í sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×