Skoðun

Vanfjármögnun vísindanna

Magnús Hallsson og Styrmir Hallsson skrifa

Íslenskt samfélag hefur lengi einkennst af vísindastarfi á heimsmælikvarða. Íslensk erfðagreining, Hjartavernd, Blóðskimun til Bjargar, og Áfallasaga kvenna eru á meðal rannsóknarverkefna og stofnanna sem hafa skilað gífurlega mikilli þekkingu inn í heim vísindanna og út til almennings. Á bak við þessi vísindaverkefni stendur frambærilegt vísindafólk sem flest allt hefur stigið sín fyrstu skref í íslensku háskólakerfi. Við megum vera stolt af þessari umfangsmiklu vinnu sem hefur átt sér stað hér síðastliðin ár og mótað vísindasamfélag sem skilar árangri. Nú stöndum við hins vegar á tímamótum, langvarandi vanfjármögnun Háskóla Íslands er að leiða til þess að grunnstoðir þessa mikla vísindasamfélags eru að bresta.

Námsleiðir innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hafa lengi einkennst af kennslu frá fyrirlesurum sem hafa stundað nám við marga af heimsins fremstu háskólum. Mannerfðafræði, lífupplýsingafræði og erfðamengjafræði, meinalíffræði og líffræði krabbameina eru á meðal áfanga sem veita sérþekkingu í lífvísindum. Umhverfisfræði, skordýrafræði, grasafræði og spendýrafræði eru á meðal áfanga sem veita sérþekkingu í líffræði. Stærðfræðileg eðlisfræði, hagnýt bayesísk tölfræði, grundvöllur líkindafræðinnar, grundvöllur tölfræðinnar, línuleg líkön með slembiþáttum, kennileg tölfræðilíkön og slembiferli eru á meðal áfanga sem veita sérþekkingu í stærðfræði og tölfræði. Jarðeðlisfræðilegar kannanir, hagnýt jarðfræði, skipulagsfræði, eðlisfræði lofthjúps jarðar og hagnýt jarðfræði eru á meðal áfanga sem veita sérþekkingu í jarðfræði, jarðvegsfræði, jarðeðlisfræði og landfræði. Allir þessir áfangar eiga það sameiginlegt að vera annað hvort án kennara, kenndir annað hvort ár eða jafnvel einfaldlega lagðir niður. Ástæðan fyrir þessu er vanfjármögnun vísindanna.

Ljóst er að við stöndum á tímamótum hér á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Háskólinn hefur ekki fjármagn og mannskapinn til þess að kenna þessa áfanga. Grunnstoðir vísindanna, kennsla í áföngum sem veita þekkingu á rannsóknum, eru að hverfa. Þetta mun leiða til þess að vísindasamfélag Íslands mun falla.

Það er kominn tími til þess að yfirvöld átti sig á ástandi háskólasamfélagsins. Langvarandi vanræksla og vanfjármögnun er farin að hafa áhrif. Þessi vanræksla er að skerða möguleika stúdenta til þess að ná sérþekkingu, vanfjármögnunin er að skerða möguleika stúdenta til þess að taka þátt í rannsóknum, meistaranámi, og framhaldsnámi þeirra fræðasviða. Er þetta hin rétta stefna háskólasamfélagsins?

Það er kominn tími til þess að styðja við okkar háskólafólk. Við Í Röskvu gerum það.

Höfundar eru Magnús Hallsson, oddviti á framboðslista Röskvu fyrir Verkfræði- og Náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Styrmir Hallsson, stúdentaráðsliði fyrir hönd Röskvu.




Skoðun

Sjá meira


×