Kristinn segir að honum sé illa við að rita þetta bréf en samviska hans leyfi honum ekki annað.
„Á morgun er áformað að þið leikið landsleik við fulltrúa þjóðarmorðingja í Ísrael sem hafa framið - og eru enn að fremja - versta ódæðisverk okkar daga. Þið eruð að fara að leika við konur sem hafa það á sinni samvisku að hafa tekið þátt í þjóðarmorði. Tugþúsundir saklausra borgara hafa verið myrtir, meirihlutinn eru konur og börn.“
Kristinn rekur að þar sem almenn herskylda sé í Ísrael liggi fyrir að konurnar sem þær íslensku munu mæta hafi skartað herbúningi Ísraelshers og bera þar með ábyrgð á miskunnarlausum ódæðisverkum á Gaza.
„Þær sem mæta ykkur á vellinum hafa ef til vill ekki tekið beinan þátt í skefjalausu morðæði en þær eru hluti af þeirri vél. Farið heldur ekki í grafgötur með að Ísraelsher og þjóðarmorðsstjórnin líta svo á að þeirra landslið sé að vinna að réttlætingu þjóðarmorðsins. Þær mæta inn á völlinn með blóð barna á höndunum og þaðan mun það blóð berast til ykkar þegar boltinn fer á milli – ef þið leikið á móti þeim.“
Kristinn biður handboltakonurnar íslensku um að sleppa því að mæta í leikinn. Hann viti að þetta sé stór bón en þær eigi að líta á þetta sem tækifæri, möguleika á að senda kröftug skilboð til heimsins alls.
„Þið fórnið ef til vill stórmóti en vinnið í staðinn titilinn að vera kyndilberar samvisku þjóðanna. Þið getið brotið ísinn í þessu óheyrilega meðvirknisástandi sem leyfir að ógeðsleg ódæðisverk séu framin án þess að nokkur hreyfi legg eða lið.“
Pistill Kristins er lengri en hann má lesa í meðfylgjandi tengli:
Kristinn lýkur svo pistli sínum, hinu opna bréfi, á að skora á íslensku handboltakonurnar:
„Samviska þjóðanna er núna að steyta á flæðiskeri vegna þjóðarmorðsins á Gaza. Vegna skefjalausra drápa í fordæmalausu morðæði. Verið hinar heppnu og gangið af velli. Áfram þið! Áfram Ísland! Ekki leika þennan leik.“