Innlent

Hagræðingarhópurinn kostaði rúmar sjö milljónir

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga, formenn ríkisstjórnarflokkanna.
Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga, formenn ríkisstjórnarflokkanna. vísir/Anton Brink

Hagræðingahópur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur kostaði rúmar sjö milljónir króna. Mikill meirihluti fjármagnsins fór í launakostnað fjögurra manna starfshóps.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra óskaði eftir tillögum frá almenningi í byrjun janúar um hvernig hagræði mætti í rekstri ríkisins. Einnig fundaði stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana um hvernig hagræða mætti í rekstri ríkisstofnana. 

Að lokum bárust tæplega fjögur þúsund hagræðingartillögur frá almenningi. Fjögurra manna starfshópur var skipaður til að vinna úr tillögunum. Það voru Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar, Hildur Georgsdóttir, framkvæmdastjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Oddný Árnadóttir, framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara.

Dilja Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir nákvæmum kostnaði fyrir störf starfshóps ríkisstjórnarinnar, en í heild nam kostnaðurinn 7.274.520 krónum. Þar af voru 6,9 milljónir í launakostnað starfshópsins.

Björn Ingi, sem var jafnframt formaður hópsins, hlaut tvær og hálfa milljón í launakostnað. Gylfi og Oddný fengu bæði 1,8 milljónir hvor og Hildur átta hundruð þúsund krónur, samkvæmt umfjöllun Heimildarinnar. Starfshópurinn fékk veitingar sem kostuðu 77.520 krónur og nam greiddur ferðakostnaður tvö hundruð þúsund krónum.

97 þúsund krónur fóru þá í aðgang að gervigreind en gervigreindarforrit var nýtt til að greina umsagnir almennings í alls ellefu meginþemu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×