Innlent

Gæslu­varð­hald fram­lengt yfir konunni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Konan var handtekinn í heimahúsi í Garðabæ. Myndin er úr safni.
Konan var handtekinn í heimahúsi í Garðabæ. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Gæsluvarðhaldið yfir konu um þrítugt vegna rannsóknar á andláti föður hennar hefur verið framlengt um þrjár vikur, eða til 7. maí næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það mun hafa verið lögreglan sem fór fram á gæsluvarðhaldið en Héraðsdómur Reykjaness samþykkt það. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er um að ræða gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Hinn látni var karlmaður um áttrætt sem lést á föstudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan handtekin í heimahúsi í Garðabæ þar sem viðbragðsaðilar komu að föður hennar snemma á föstudagsmorgun.

Í gærmorgun var greint frá því á Vísi að eiginkona hins látna hefði hringt á neyðarlínuna eftir að hann hneig niður snemma á föstudagsmorgun. Þá hafi hann fengið fyrir hjartað. Maðurinn var fluttur á Landspítalann og lést þar síðar um daginn.

Fram að kom að hjónin hafi búið í einbýlishúsi í Garðabænum ásamt 28 ára einkadóttur sinni, og að nú sé rannsakað er hvort dóttirin hafi hugsanlega átt þátt í andláti föður síns.


Tengdar fréttir

Konan var handtekin í heimahúsi í Garðabæ

Dóttir karlmanns um áttrætt sem lést á föstudag er í gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar á andláti hans. Samkvæmt heimildum fréttastofu var konan handtekin í heimahúsi í Garðabæ þar sem viðbragðsaðilar komu að föður hennar snemma á föstudagsmorgun. Lögregla verst allra frekari frétta af málinu.

Handtekin vegna andláts föður síns

Kona sem grunuð er um að hafa orðið föður sínum að bana var úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag. Hún var handtekin í heimahúsi mannsins eftir að tilkynning barst um meðvitundarlausan mann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×