Körfubolti

LeBron um framtíðina: „Hef ekki svar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James var að ljúka sínu 22. tímabili í NBA. Hann er stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar.
LeBron James var að ljúka sínu 22. tímabili í NBA. Hann er stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar. getty/Jon Putman

Eftir að Los Angeles Lakers féll úr leik í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt var LeBron James spurður út í framtíð sína. Þessi fertugi leikmaður var að klára sitt 22. tímabil í NBA.

LeBron skoraði 22 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar þegar Lakers tapaði fyrir Minnesota Timberwolves í nótt, 96-103. Lakers tapaði einvíginu, 4-1.

Aðspurður um framtíð sína eftir leik sagðist LeBron ekki vera búinn að ákveða næstu skref.

„Ég hef ekki svar. Þetta er eitthvað sem ég mun setjast yfir með konunni minni og stuðningshópnum og ræða um og sjá hvað gerist. Bara velta því fyrir mér hversu lengi ég vil halda áfram að spila. Ég er ekki með svarið núna ef ég á að vera heiðarlegur,“ sagði LeBron á blaðamannafundi.

„Það er undir mér komið ef ég held áfram að spila og hversu lengi. Það er mín ákvörðun og hefur ekkert með aðra að gera.“

Flestir búast við því að LeBron haldi ótrauður áfram. Sonur hans, Bronny, spilar með Lakers og þá fékk liðið stórstjörnuna Luka Doncic í vetur.

LeBron skoraði 24,4 stig, tók 7,8 fráköst og gaf 8,2 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili. Lakers endaði í 3. sæti Vesturdeildarinnar. 

LeBron kom til Lakers fyrir sjö árum. Hann varð meistari með liðinu 2020.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×