Sport

Stór­bætti heims­metið í bak­garðs­hlaupum

Aron Guðmundsson skrifar
Lukasz Wróbel frá Póllandi, hlauparinn fjær okkur í mynd, er nýr heimsmethafi í bakgarðshlaupum.
Lukasz Wróbel frá Póllandi, hlauparinn fjær okkur í mynd, er nýr heimsmethafi í bakgarðshlaupum. Legends Backyard Belgium / Caroline Dupont

Lukasz Wróbel er nýr heimsmethafi í bakgarðshlaupum. Nýtt heimsmet, upp á 116 hringi setti hann í Legends Backyard ultra hlaupinu í Belgíu í nótt.

Bakgarðshlaupin, sem hafa notið mikilla vinsælda hér á landi, fela það í sér að keppendur þurfa að hlaupa 6,7 kílómetra hring á innan við klukkustund á hverri klukkustund þar sem ræst er út í hvern hring á heila tímanum.

Fyrra heimsmetið stóð í 110 hringjum og því er um töluverða bætingu á heimsmeti að ræða hjá Lukasz en hringirnir 116 telja alls 777,3 kílómetra og er það persónuleg bæting hjá honum upp á 28 hringi.

Baráttan um sigurinn í hlaupinu sem og nýtt heimsmet stóðu á milli Lukasz og Belgans Jan Vandekerckhove lengi vel en eftir að allir aðrir keppendur höfðu fallið úr leik stóðu þeir tveir einir eftir í 56 hringi.

Þess má til gamans geta að núverandi Íslandsmet í bakgarðshlaupum stendur í 62 hringjum eða 415,4 kílómetrum. Það met er í eigu Þorleifs Þorleifssonar en það setti hann á Heimsmeistaramóti landsliða í bakgarðshlaupum í október á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×