Innlent

„Við gerum ekki svona við börn“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Páll Óskar lét í sér heyra á mótmælunum í morgun.
Páll Óskar lét í sér heyra á mótmælunum í morgun. Vísir/Anton Brink

„Ég er gáttaður á því hvernig þetta samfélag kýs að koma fram við börn,“ segir tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Hann er meðal þeirra sem mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun hins 17 ára Oscars við fundarstað ríkisstjórnar í dag.

„Þetta gerum við ekki í siðuðu samfélagi. Barn sem er nú þegar með ástríka foreldra sem vilja taka hann að sér, biðja ekki um krónu fyrir. Barnið á samt á hættu að það verði pikkað upp, jafnvel í skjóli nætur og flutt aftur heim til Kólumbíu, eitt síns liðs. Nei, þetta gerum við ekki. Þú kemur ekki svona fram við börn,“ sagði Páll Óskar þegar Bjarki Sigurðsson fréttamaður ræddi við hann í morgun.

Hann sagðist rétt ætla að vona að stjórnvöld svöruðu ákallinu um að Oscar fengi að vera hér, en hjónin Sonja Magnúsdóttir og Svavar Jóhannsson hafa boðist til að taka drenginn í fóstur.

„Við viljum ekki fleiri dauf eyru. Ekki meira „computer says no“. Við erum orðin þreytt á því, það er búið að segja þann brandara oft. Þetta er ekki einu sinni fyndinn brandari. Þetta er ofbeldi, kvíðavaldandi fyrir þann sem á í hlut, og við gerum ekki svona við börn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×