Körfubolti

„Er þetta ljótasti maður sem þú hefur kysst?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charles Barkley var léttur að vanda í viðtalinu við Nikola Jokic.
Charles Barkley var léttur að vanda í viðtalinu við Nikola Jokic. Getty/ Justin Edmonds/Derek White/

Nikola Jokic var í góðu skapi eftir sigur Denver Nuggets á Los Angeles Clippers í oddaleik um sæti í annarri umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta.

Jokic hefur reyndar oft verið betri en skilaði 16 stigum, 10 fráköstum og 8 stoðsendingum. Yfirburðirnir voru meira að segja það miklir að DeAndre Jordan fékk að spila í sjö mínútur.

Eftir leikinn fór vel á með Jokic og Jordan sem kysstust þrisvar sinnum. Sérfræðingarnir hjá TNT sjónvarpsstöðinni forvitnuðust um kveðjuna þegar Jokic kom í viðtal í beinni í þættinum.

„Þetta er serbnesk kveðja. Hann vill verða Serbi,“ sagði Nikola Jokic léttur en sagðist þó ekki ætla að stríða liðsfélaga sínum meira.

„Er þetta ljótasti maður sem þú hefur kysst á ævinni?,“ spurði þá Charles Barkley en fékk neikvætt svar, svona í fyrstu.

„Nei,“ sagði Jokic strax hlæjandi en hugsaði sig síðan aðeins betur um og allt TNT settið skellihló. 

Það má sjá þessi samskipti hér fyrir neðan en myndbandið er aðgengilegt með því að fletta yfir á næstu mynd.

Denver Nuggets mætir Oklahoma City Thunder í næstu umferð og fyrsti leikurinn er strax í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×