Skoðun

Hverju hef ég stjórn á?

Álfheiður Ingólfsdóttir skrifar

Lífið færir mér ýmsar áskoranir og það væri óskandi að ég hefði stjórn á þeim öllum. Svo er víst ekki, það eina sem ég get stjórnað er ég sjálf, mín viðbrögð, mín hegðun og framkoma.

Oft á tíðum hef ég einblínt á það sem aflaga fer, hvernig fólk kemur fram, hvað það segir o.s.frv. Þetta hefur ekki skilað mér miklu, nema kannski helst vanlíðan og ómögulegheitum. Þegar ég hins vegar næ að beina sjónum mínum að mér sjálfri og mínum viðbrögðum við því sem lífið hefur upp á að bjóða þá virðast hlutirnir ganga betur. Ég hef nefnilega enga stjórn á því hvað aðrir gera eða segja en ég hef fulla stjórn á því hvernig ég bregst við. Mér tekst þó ekki alltaf vel upp en ég læt mistökin ekki stoppa mig af, ég stend upp aftur og held ótrauð áfram.

Það er svo merkilegt að þegar ég næ að beina athyglinni að sjálfri mér þá virðist lífið frekar vera með mér í liði, mér líður betur og ég undrast í raun hvað ég hef mikla stjórn á hlutunum. Allt snýst þetta um að velja hvað ég legg áherslu á og í hvað ég nýti krafta mína.

Verum upptekin af okkar eigin hegðun, okkar eigin viðbrögðum, okkar eigin orðum. Í því felst heilmikill kraftur sem færir okkur betri líðan og hún er bráðsmitandi.

10 hlutir sem ég get haft stjórn á:

  1. Ég get valið hvernig ég bregst við áreiti.
  2. Ég get valið að nýta hæfileikana mína.
  3. Ég get valið orðin sem ég nota.
  4. Ég get valið að vera þakklát.
  5. Ég get valið hvernig ég túlka hlutina.
  6. Ég get valið hvort ég hlusta.
  7. Ég get valið að biðja um hjálp.
  8. Ég get valið að sýna öðrum virðingu.
  9. Ég get valið að róa mig niður þegar ég kemst í uppnám.
  10. Ég get valið hvernig ég kem fram við aðra.

Höfundur er verkefnisstjóri ART teymis Suðurlands.




Skoðun

Skoðun

Deja Vu

Sverrir Agnarsson skrifar

Sjá meira


×