Möl og grjót féll af palli stórrar grænblárrar vörubifreiðar á Reykjanesbraut um klukkan 14.30 hinn 3. júlí síðastliðinn, sem olli tjóni á fjórum bílum hið minnsta.
Bíllinn var á leið austur Reykjanesbraut rétt vestan við álverið í Straumsvík þegar efnið féll af pallinum, meðal annars á bíl sem kom úr austri. Vitað er um þrjá aðra bíla sem urðu fyrir tjóni og að sögn lögreglu hleypur tjónið samanlagt á hundruðum þúsunda.
Þeir sem telja sig geta veitt upplýsingar eru beðnir að hafa samband við lögregluna í Keflavík.