Erlendur ferðamaður velti bílaleigubíl sínum á Hólssandi í fyrrakvöld. Hann var einn í bílnum og sakaði ekki. Varðstjóri lögreglunnar á Húsavík segir þennan veg sérstaklega varasaman. Það sem af er sumri hafi orðið þar einar átta bílveltur.
Lögreglan á Húsavík hefur lagt til að hámarkshraði á veginum verði lækkaður úr áttatíu kílómetrum á klukkustund niður í sextíu og að settar verði upp sérstakar merkingar, en ekki hefur verið brugðist við þeim óskum. Að sögn lögreglu er vegurinn um Hólssand í algjörum sérflokki hvað varðar bílveltur.