Vopnaður ræningi rændi Happdrætti Háskóla Íslands í Tjarnargötu laust fyrir klukkan tólf. Maðurinn kom inn með byssu og sagðist vera að ræna útibúið: Hann vatt sér síðan að næsta peningakassa, tók laust fé úr honum og hvarf á braut. Honum var veitt eftirför en hefur enn ekki fundist.
Maðurinn var grímuklæddur en ekki er vitað hvort byssan sem hann veifaði var alvörubyssa eða eftirlíking. Enginn starfsmaður slasaðist í ráninu.
Lögreglan vinnur nú að því að taka skýrslur af starfsfólki sem var við vinnu þegar þetta fyrsta vopnaða rán í 70 ára sögu Happdrættis Háskóla Íslands átti sér stað.