Vika er nú liðin síðan tilkynnt var um sambandsslit Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton. Breskir fjölmiðlar hafa verið undirlagðir af fréttum um þau skötuhjúin. Til að mynda hafa nokkur dagblöð birt leiðinlegan rógburð um fjölskyldu Kate og hefur það lagst þungt á hana.
Af þessum sökum hefur Vilhjálmur verið í stöðugu símasambandi við fyrrverandi unnustu sína. Hann dvelst nú á herstöð í Dorset þar sem hann er í þjálfun.

„Þau eru kannski hætt saman en þau hafa verið náin svo lengi að þau munu ekkert hætta að tala saman,“ segir heimildarmaðurinn enn fremur.
Kate hafa borist hundruð bréfa með stuðningsyfirlýsingum frá almenningi. Vinir hennar segja að þessi stuðningur hafi hjálpað henni mikið, svo mikið að hún lét sig hafa það að skella sér út á lífið með vinkonum sínum á föstudagskvöld.
„Þessi viðbrögð almennings hafa sannarlega hjálpað. Það hefði verið auðvelt fyrir hana að fara til útlanda til að losna undan álaginu en stuðningurinn sannfærði hana um að vera kyrr,“ sagði vinkona Kate Middleton.