Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í Reykjavík um helgina eins og undanfarin ár. Í þetta skiptið fer hátíðin fram á nýja tónleikastaðnum Organ í Hafnarstræti sem opnar þá með pompi og pragt.

Hátíðin er sem fyrr hugsuð fyrir innipúka sem kjósa að vera heima við um verslunarmannahelgina og láta öðrum eftir að velkjast í regnvotum tjöldum með Bubbalög í bakgrunni.
Meðal þeirra hljómsveita sem koma fram eru Seabear, Forgotten Lores, Mr. Silla og Mongoose, Ghostigital og FM Belfast.
Miðasala fer fram í versluninni 12 Tónum á Skólavörðustíg og er afar takmarkað miðaframboð sökum stærðar staðarins.