Megas og Senuþjófarnir halda tónleika í Laugardalshöll laugardaginn 13. október. Eins og kom fram í Fréttablaðinu fyrir skömmu ætlar Megas að spila í Höllinni í tilefni af útgáfu plötunnar Frágangur. Hefur platan selst í um þrjú þúsund eintökum og er fjórða söluhæsta plata Megasar frá upphafi.
Á tónleikunum munu Megas og Senuþjófarnir flytja allar helstu perlur Megasar í bland við lög af nýju plötunni. Miðasala hefst í byrjun september og verður eingöngu selt í númeruð sæti. Verða því aðeins um 2.500 aðgöngumiðar í boði.