Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um rúma fjóra dali á tunnu eftir að stjórnvöld í Kína ákváðu að hækka verð á eldsneyti og díselolíu um átján prósent. Markmiðið er að draga úr eldsneytiskaupum og slá á verðbólgu í landinu.
Hækkunin tekur gildi um næstu mánaðamót.
Búist er við að aðgerðirnar muni hafa mikil áhrif á heildareftirspurnina og valda því að verðið lækki frekar. Hráolíuverðið fór í methæðir fyrr í vikunni þegar það snerti 140 dali á tunnu.
Almennt hefur því verið haldið fram að eftirspurn á nýmörkuðum, svo sem í Kína, eigi hlut að máli í mikilli hækkunarhrinu á hráolíu upp á síðkastið. Kínverjar eru í öðru sæti yfir mestu olíusvelgi heims, að sögn fréttastofu Associated Press.