Viðskipti erlent

Amazon í sam­keppni við SpaceX í geimnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá geimskotinu í Flórída í gær.
Frá geimskotinu í Flórída í gær. AP/John Raoux

Starfsmenn Amazon og United Launch Alliance skutu í gær upp fyrstu 27 gervihnöttunum í nýrri gervihnattaþyrpingu Amazon. Þyrping þessi ber nafnið Kuiper og á á endanum að vera mynduð með að minnsta kosti 3.236 gervihnöttum sem gera eiga fólki á jörðu niðri kleift að fá aðgang að netinu.

Áætlað er að þyrpingin muni kosta um tíu milljarða dala.

Með þessu stefnir Amazon á að fara í samkeppni við Starlink, gervihnattaþyrpingu SpaceX en Amazon og SpaceX eru eins og frægt er í eigu tveggja auðugustu manna heims, Jeffs Bezos og Elons Musk.

SpaceX hefur þegar komið rúmlega átta þúsund Starlink gervihnöttum á braut um jörðu og er því með töluvert forskot. SpaceX getur þar að auki komið farmi á braut um jörðu með ódýrari hætti en önnur fyrirtæki, vegna þess að starfsmenn fyrirtækisins lenda eldflaugum og endurnýta þær.

Það er tækni sem starfsmenn Blue Origin, fyrirtækis í eigu Bezos, eru að vinna í. Þessir fyrstu gervihnettir Kuiper voru þó sendir á braut um jörðu með Atlas 5 eldflaug ULA. Markmið Amazon er að framkvæma sjö sambærileg geimskot á þessu ári og verður að minnsta kosti eitt þeirra til viðbótar með Atlas 5 eldflaug ULA.

Hafa keypt tugi geimskota

Seint í sumar er vonast til þess að hægt verði að nota nýja eldflaug fyrirtækisins sem kallast Vulcan en hún á að geta borið 45 gervihnetti á braut um jörðu, samkvæmt viðtali SpaceFlightNews við yfirmann ULA.

Amazon hefur í heildina keypt 38 geimskot með Vulcan, auk 33 geimskota með Ariane 6 eldflaug Arianespace, Falcon 9 eldflaugum SpaceX og New Glen eldflaugum Blue Origin.

Amazon mun ekki byrja að selja aðgengi að Kuiper fyrr en búið er að koma að minnsta kosti 578 gervihnöttum á braut um jörðu, seinna á þessu ári. Eins og áður segir eiga gervihnettirnir að endingu að vera 3.236 talsins og verða þeir á 590 til 630 kílómetra hæð frá jörðu.

CNBC segir að markmið forsvarsmanna Amazon sé að 1.618 gervihnettir verði komnir á braut um jörðu fyrir júlí á næsta ári.

Verkefnið hefur þó tafist nokkuð. Þetta fyrsta geimskot tafðist til að mynda um rúmlega ár og er talið að það gæti leitt til þess að áðurnefnt markmið náist ekki.

Bezos hefur sagt að eftirspurn eftir internettengingu gegn gervihnetti sé gífurlega mikil og að bæði Starlink og Kuiper geti blómstrað.


Tengdar fréttir

Annað Starship sprakk í loft upp

Annað tilraunaskot Starship-geimskips SpaceX í röð misheppnaðist í gærkvöldi. Geimskipið sprakk skömmu eftir geimskotið og dreifðist brakið úr því í háloftunum yfir Flórída og Karíbahafinu þar sem það brann, með tilheyrandi sjónarspili.

Ný eldflaug Bezos náði á sporbraut í fyrstu tilraun

Blue Origin, geimferðafyrirtæki auðjöfursins Jeffs Bezos, sendi í morgun geimfar á braut um jörðu í fyrsta sinn, nærri því aldarfjórðungi eftir að fyrirtækið var stofnað. Það var gert með eldflauginni New Glenn eftir að fyrsta geimskoti hennar hafði ítrekað verið frestað.

Auðjöfur og einkageimfari mun stýra NASA

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í kvöld að hann ætlaði að tilnefna auðjöfurinn Jared Isaacman sem yfirmann Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA). Auðjöfurinn hefur verið viðloðinn geimiðnað Bandaríkjanna og fór meðal annars í fyrstu borgaralegu geimgönguna, fyrr á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×