Fernando Alonso segist vera líklegri til að halda tryggð við Renault ef liðið getur komið með bíl sem getur unnið keppnir. Alonso fór aftur til Renault og skrifaði undir tveggja ára samning en hefur aðeins fengið sex stig úr þremur fyrstu keppnum tímabilsins.
Sögusagnir hafa verið í gangi um framtíð hans og meðal annars talað um að hann gæti farið til Ferrari á næsta ári.
„Minn fyrsti valkostur er að vera áfram hjá Renault ef það gengur vel að búa til bíl sem getur fært mér sigra," segir Alonso.
Renault hefur lofað Alonso hraðari og áreiðanlegri bíl í næstu keppni sem verður á Spáni.