Formúla 1

Blótar háum sektum fyrir það að blóta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Sainz yngri er mjög ósáttur með að fá risasekt fyrir að blóta.
Carlos Sainz yngri er mjög ósáttur með að fá risasekt fyrir að blóta. Getty/Paddocker

Alþjóðaakstursíþróttasambandið er í herferð gegn blótsyrðum og það er óhætt að segja að ökumenn í formúlu 1 séu ekki sáttir við framkvæmdina.

Nú hafa sektirnar hækkað mikið og ökumenn eiga auk þess á hættu að verða settir í bann brjóti þeir oft af sér.

Einn af þeim ósáttu með þessa hörðu línu er Spánverjinn Carlos Sainz. Sainz hefur bæði verið sektaður fyrir að mæta of seint sem og fyrir að blóta. NRK segir frá.

Ökumennirnir hafa meðal annars farið þá leið að veita ekki viðtöl á ensku heldur aðeins á sínu eigin tungumáli. Það gera þeir til að mótmæla háum sektum og ofstjórn samtakanna.

„Að mínu mati þá er það úti í hött að við þurfum að borga svona háar sektir. Ég veit ekki hvort ég fái aðra sekt fyrir að segja þetta en svona er þetta bara,“ sagði Carlos Sainz á blaðamannafundi fyrir Barein kappaksturinn um helgina.

Í tengslum við síðasta kappakstur í Japan þá fékk Sainz 2,8 milljón króna sekt fyrir að mæta of seint í þjóðsönginn. Spánverjinn sagði hafa verið með í maganum og liðslæknirinn staðfesti það seinna.

Sainz notaði þarna orðalagið "shit happens" og það er blótsyrði. Hann á von á 5,5 milljón króna sekt fyrir það.

Það er ekki vitað hvort að mótmælaaðgerðir ökumannanna hafi einhver áhrif en yfirmenn þeirra vilja alls ekki heyra blótsyrði, hvorki í kallkerfi bílanna né í viðtölum við blaðamenn.

Meðan reglurnar eru í gildi og ökumennirnir missa ljót orð út úr sér er því líklegt að þeir haldi áfram að missa stórar upphæðir út af bankareikningum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×