Helstu samtök í norskum sjávarútvegi hafa sameiginlega farið fram á að stjórnvöld útvegi 5 milljarða norskra króna, jafnvirði 85 milljarða kr. til þess að tryggja eðlilegan útflutning sjávarafurða frá Noregi í fjármálakreppunni.
Fjallað er um málið á skip.is en þessi fjárhæð svarar til þriðjungs af árlegu útflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs í Noregi. Fyrst og fremst er beðið um tryggingar og lánafyrirgreiðslu vegna þess að bankakerfið innanlands og erlendis starfar ekki með eðlilegum hætti, segir í frétt á sjávarútvegsvefnum IntraFish.
Þetta ástand kemur sérstaklega illa niður á þeim fyrirtækjum sem eru með miklar afurðir í birgðum.
Hingað til hefur sjávarútveginum verið haldið utan við hjálparaðgerðir stjórnvalda í tengslum við fjármálakreppuna en forustumenn þessar atvinnugreinar vilja fá því breytt.