Ný stjórn móðurfélags Carnegie bankans í Svíþjóð hefur ákveðið að hætta við málsókn sína gegn fjármálaeftirliti landsins. Í staðinn er ætlunin að reyna að semja við Lánastofnun ríkisins (Riksgälden) um endurheimt Carnegie Investment Bank og tryggingarfélagsins Max Matthiessen.
Milestone á enn 10% hlut í Carnegie í gegnum Moderna Finans og ef hinni nýju stjórn tekst að semja um endurheimt fyrrgreindra eigna sinni gæti sá hlutur orðið verðmætur á ný.
Þegar sænska ríkið yfirtók Carnegie bankann á sínum tíma eftir að fjármálaeftirlit landsins hafði svipt bankann starfsleyfi sínu var fjárfestingararmi hans og tryggingarfélagi komið í eigu Riksgälden sem rekið hefur félögin síðan. Móðurfélag Carnegie ákvað síðan að höfða mál gegn fjármálaeftirlitinu til að fá þessum gerningum hnekkt.
Hinn nýi stjórnarformaður Carnegie Ronald Bengtsson segir í samtali við Dagens Industri að hann hafi þegar átt "mjög jákvæðan" fund með Bo Lundgren forstjóra Riksgälden um hugsanlega endurheimt eigna bankans og að frekari viðræður séu framundan.