Max Mosley og FIA hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að sambandið muni lögsækja Formúlu 1 liðin átta sem ætla að stofna eigin mótaröð.
FIA segir að af liðunum átta séu með bindandi samning við FIA um að keppa í Formúlu 1 á næsta ári og þá sér í lagi Ferrari.
Virðist því ekki mikill samningshugur í forseta FIA, Max Mosley, nema yfirlýsingin sé krókur á móti bragði. Mosley hefur löngum þótt slyngur samningamaður, en hann er lögfræðungur að mennt.
Átta lið af tíu sem keppa í Formúlu 1 í dag vilja stofna eigin mótaröð vegna þess sem þau telja erfið samskipti við yfirstjórn FIA. Þau lýstu þessu yfir í dag og Formúlu 1 ökumenn styðja FOTA, samtök keppnisliða.
Mótið á Silverstone verður því haldið í skugga deilna málsaðila og FIA ætlar ekki að gefa út lista þátttakenda á morgun eins og til stóð. Sambandið hyggst skoða réttarstöðu sína áður en lengra er haldið.
Þáttur um Formúlu 1 er á dagskrá Stöðvar 2 Sport í kvöld kl. 19.25, þar sem sýnt verður frá æfingum og fjallað um deilurnar milli FOTA og FIA.