Heimsmeistarinn Jenson Button á McLaren náði besta tíma á æfingum á Jerez brautinni á Spáni í dag. Hann varð um 0.3 sekúndum fljótari en Robert Kubica á Renault, en franska liðið hefur verið býsna sterkt á æfingum.
Japaninn Kamui Kobayashi gerði enn góða hluti á æfingum og varð þriðji, rétt á undan Tonio Liuzzi á Force India.
Hvað samanlagða tíma vikunnar varðar, þá var Button fljótastur allra á undan Kubica með tímum dagsins í dag og síðan Kobayashi.
Michael Schumacher sem margir fylgjast með þessa dagana var með tíunda besta aksturstíma vikunnar, en félagi hans Nico Rosberg hjá Mercedes var með sjötta besta tíma.