„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég er mjög spennt fyrir sýningunni," segir Ólöf Jara Skagfjörð.
Ólöf Jara leikur Maríu Elenu, eiginkonu Buddy Holly í söngleik um söngvarann sem verður frumsýndur í endurbættum Austurbæ í október. Þar leikur Ólöf á móti hjartaknúsaranum Ingó veðurguði sem fer með hlutverk söngvarans.
„Ég er mjög spennt fyrir að vinna með Ingó. Ég held að hann sé bara góður gaur og hlakka til að kynnast honum," segir Ólöf. „Ég held að það verði mjög gaman. En ég á kærasta þannig ég get ekki sagt að ég sé spennt á sömu forsendum og margar aðrar myndu vera."
Sagan um Buddy Holly er einstaklega sorgleg því söngvarinn lést í hörmulegu flugslysi á toppi ferilsins einungis 23 ára gamall. Þrátt fyrir að hafa aðeins verið í sviðsljósinu í eitt og hálft ár skildi hann eftir sig fjöldann allan af gullmolum sem lifa enn þann dag í dag.
„Ég held að þetta verði mjög góð sýning. Það er góð tónlist í sögunni og lög frá þessu tímabili eru með góðum laglínum. Ég er mjög hrifin af tónlist í þessum stíl," segir Ólöf Jara.

Ólöf á ekki langt að sækja hæfileikana, en hún er dóttir Guðrúnar Gunnarsdóttur og Valgeirs Skagfjörð. Hún lék annað aðalhlutverkið í uppfærslu Verzló á söngleiknum Kræ-beibí sem er frá svipuðu tímabili. Þá lék hún Sandy í uppfærslu á Grease í Loftkastalanum í fyrra.
linda@frettabladid.is