Lífið

Grey‘s Anatomy-stjarna greindist með MND

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 52 ára Eric Dane er þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk Dr. Mark Sloan, einnig þekktur sem McSteamy, í sjónvarpsþáttunum Grey’s Anatomy.
Hinn 52 ára Eric Dane er þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk Dr. Mark Sloan, einnig þekktur sem McSteamy, í sjónvarpsþáttunum Grey’s Anatomy. EPA

Bandaríski leikarinn Eric Dane, sem þekktur er fyrir að hafa um árabil farið með hlutverk í þáttunum Grey‘s Anatomy, hefur greinst með taugahrörnunarsjúkdóminn ALS, tegund af MND.

Dane greinir frá þessu í samtali við bandaríska fjölmiðilinn People. „Ég er þakklátur fyrir að njóta stuðnings fjölskyldu minnar þegar við hefjum þennan næsta kafla,“ segir hann.

Dane er giftur leikkonunni Rebeccu Gayheart og eiga þau saman tvær unglingsdætur – hina fimmtán ára Billie Beatrice og hina þrettán ára Georgia Geraldine.

Dane segir frá því að hann sé enn við það góða heilsu að hann geti haldið áfram að starfa sem leikari.

Síðustu misserin hefur hann farið með hlutverk hins stranga föður, Cal Jacobs, í þáttunum Euphoria. Tökur á þriðju þáttaröðinni hófust í janúar, en tökur hjá Dane áttu eiga að hefjast síðar í þessari viku. „Ég er þakklátur að geta haldið áfram að vinna og ég hlakka til að mæta aftur,“ segir Dane við People.

Hinn 52 ára Dane er þekktastur fyrir að hafa farið með hlutverk Dr. Mark Sloan, einnig þekktur sem McSteamy, í sjónvarpsþáttunum Grey’s Anatomy. Hann lék í átta þáttaröðum og hætti eftir lok þeirrar níundu.

Hann hefur á ferli sínum einnig farið með hlutverk í þáttunum The Last Ship og kvikmyndum á borð við Bad Boys: Ride or Die og Marley & Me.

MND-sjúkdómurinn leiðir til minnkandi styrks vöðva, en nánar má lesa um sjúkdóminn á vef MND á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.