Óttast er að tala látinna á hamfarasvæðunum í Japan geti farið yfir 10 þúsund en um 9500 manns er saknað í bæ sem varð illa úti í skjálftanum á föstudag. Erlendar björgunarsveitir streyma nú til landsins. Sveitir frá Þýskalandi, Sviss, Ungverjalandi og Taívan lentu í Tókýó í morgun með leitarhunda og annan búnað til leitar í rústum.
Óttast er að tala látinna fari yfir 10 þúsund á í norðurhluta landsins sem varð hvað verst úti. Milljónir manna dvelja nú þar án drykkjarvatns og rafmagns en erlendu björgunarsveitirnar munu fara á svæðið sem fyrst.
Japanskar björgunarsveitir hafa leitað að fólki á svæðinu og er talið að fólk geti enn verið á lífi í rústunum. Naoto Kan, forsætisráðherra landsins, hélt neyðarfund með björgunarliðum í morgun og sagði að nú væri þetta kapphlaup við tímann. Miklir eftirskjálftar hafa verið á svæðinu alla helgina.
9500 manns er saknað í bæ á norðuströndinni sem fór illa í skjálftanum en þar bjuggu um 17 þúsund manns. Ekkert hefur spurst til fólksins frá því að skjálftinn reið yfir.
Þá hafa menn miklar áhyggjur af kjarnorkuveri í bænum Fukushima þar sem öflug sprenging varð í gærmorgun. Óttast er að önnur sprenging geti orðið í verinu en þar beita menn öllum ráðum við að kæla kjarnaofninn og hafa notað sjó til verksins. Kælikerfi kjarnorkuversins laskaðist í í skjálftanum og ríkir sannkallað neyðarástand á svæðinu en þegar hefur verið staðfest að nokkrir hafi orðið fyrir geislun. Óttast menn að enn fleiri gætu verið í þeim hópi.
Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur í Japan en hann hefur verið talinn vera 8,9 á Richterskala, yfirvöld í Japan hækkuðu þá tölu upp í níu í gærkvöldi.
