Andy Murray datt óvænt úr keppni í fyrstu viðureign sinni á ATP-mótinu í India Wells í Kaliforníu í gær. Murray, sem vermir fjórða sæti heimslistans, beið lægri hlut gegn Guillermo Garcia-Lopez frá Spáni 6-4 og 6-2.
Garcia-Lopez er í 92. sæti heimslistans og úrslitin því afar óvænt.
„Svörin mín við uppgjöfum hans voru fyrir neðan par og hann gerði fá mistök," sagði Murray sem tapaði einni uppgjafalotu í fyrra settinu og tveimur í því seinna.
„Gæðin í tennis í dag eru svo mikil að það eru engar auðveldar viðureignir í fyrstu umferð. Ef þú spilar illa þá fer svona fyrir þér," sagði Skotinn við blaðamenn að tapinu loknu. Þetta er annað árið í röð sem Murray fellur úr keppni við fyrstu hindrun á mótinu í India Wells.
Flestar skærustu stjörnurnar áttu ekki í teljandi erfiðleikum með andstæðinga sína. Novak Djokovic fór létt með Andrey Golubev frá Kasakstan 6-3 og 6-2. Andy Roddick þurfti að hafa öllu meira fyrir því að slá Pólverjann Lukasz Kubot úr keppni í þremur settum 6-7, 6-3 og 6-4.
Í kvennaflokki fóru Caroline Wozniacki og Maria Sharapova illa með andstæðinga sína í 6-2 og 6-0 sigrum.
Murray úr leik við fyrstu hindrun í Kaliforníu
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
