„Það er alveg ljóst að það var hátt reitt til höggs," segir Þórður Bogason, verjandi Guðmundar Hjaltasonar í Vafningsmálinu. Guðmundur, sem var framkvæmdastjóri hjá Glitni, og Lárus Welding, forstjóri Glitnis, fengu í dag níu mánaða fangelsisdóm, þar af sex mánuði skilorðsbundna í Vafningsmálinu svokallaða.
Guðmundur Hjaltason var ekki viðstaddur dómsuppsögu. Það var hins vegar Lárus Welding en hvorki hann né Óttar Pálsson, verjandi hans, vildu tjá sig um dómsuppsöguna. Þórður Bogason segir að niðurstaðan sýni að sérstakur saksóknari þurfi að fara í naflaskoðun á því hvernig hann vinnur hlutina.