Veginum um Hellisheiði var í gær lokað vegna ófærðar í þriðja sinn í þessum mánuði. Lokunin tók gildi í gærmorgun, en heiðin hafði þá verið opnuð um nóttina eftir að hafa verið lokuð í nær sólarhring. Þar áður var henni lokað 10. janúar.
Nokkuð öngþveiti myndaðist upp við Litlu-kaffistofuna vegna þeirra sem ekki treystu sér áfram og vegna bíla sem voru fastir á heiðinni fyrri partinn í gær. Vegurinn hafði þá ekki verið opinn nema í nokkrar klukkustundir. Mikill snjór var á fjallinu og léttur þannig að færð var fljót að spillast auk þess sem mjög blint var í snjófjúkinu þegar tók að hreyfa vind.
Fyrri part dags voru bæði Hellisheiði og Þrengsli lokuð, en Þrengslin voru opnuð aftur um miðjan dag í gær. Mög slæmt veður hafði þá verið á svæðinu og ekki gert ráð fyrir að það tæki að lagast fyrr en undir kvöld í gær þegar hlýnaði og draga átti úr úrkomu. Vegagerðin varaði þó sérstaklega við því að um leið og blotnaði yrðu vegir víða flughálir.
„Flestar aðrar leiðir á Suðurlandi eru færar en þæfingsfærð er þó á Mosfellsheiði og skafrenningur og sums staðar er þungfært á fáfarnari sveitavegum," sagði á vef Vegagerðarinnar. - óká
Blint í fjúkinu þegar vind hreyfði
