Björk hefur aflýst tónleikum sem hún ætlaði að halda í Sao Paulo í Brasilíu 11. maí vegna hnúðs á raddböndunum.
Hún hefur verið á tónleikaferðalagi um Suður-Ameríku að undanförnu en stutt er síðan hún þurfti að aflýsa tvennum tónleikum í Buenos Aires í Argentínu vegna veikindanna. Eftir að hafa gengist undir læknisskoðun kom í ljós að ef hún hvíldi röddina ekki lengur gæti hún átt það á hættu að skemma röddina til frambúðar.
„Því miður get ég ekki sungið á Sonar-hátíðinni í Brasilíu sem er synd vegna þess að þeir listamenn sem eiga að spila þar eru frábærir og ég elska Brasilíu," skrifaði Björk á Facebook-síðu sína og bætti við að hún yrði að vera í þagnarbindindi eitthvað fram í maí samkvæmt læknisráði.
Björk greindist fyrst með hnúð á raddböndunum árið 2008 og óttaðist að hún gæti ekki sungið framar, eða ekki eins og hún var vön. Hún vildi ekki fara í aðgerð af ótta við að hún myndi skemma röddina. Þess í stað gerði hún æfingar til að teygja á raddböndunum.
Björk þarf að hvíla raddböndin
