Bandaríski tölvurisinn Apple hefur sölu á nýjum útgáfum af iPad-spjaldtölvunum um heim allan í dag. Íslenskar verslanir hefja einnig sölu á tölvunum í dag.
Tim Cook, forstjóri Apple, kynnti nýju spjaldtölvurnar á þriðjudag í síðustu viku. Bæði er um uppfærslu á þriðju kynslóð af iPad að ræða og minni útgáfu af tölvunni.
Áhrifa Steve Jobs á vörur fyrirtækisins gætir í æ minni mæli. Ný framleiðslutæki eru notuð í vörur Apple og breytingar á yfirstjórn hönnunardeilda á miðvikudag gætu haft mikil áhrif á notendaviðmót Apple-tækja framtíðarinnar.

