Ólympíumeistarinn í sjöþraut, Englendingurinn Jessica Ennis-Hill, verður ekki á meðal þátttakenda á HM í frjálsum í Moskvu.
Ennis-Hill, sem nýlega gifti sig og breytti eftirnafni sínu, hefur glímt við meiðsli í hásin í nokkurn tíma.
„Að segja að þetta séu vonbrigði er vægt til orða tekið," sagði Ennis-Hill í samtali við BBC.
„Enginn íþróttamaður vill missa af tækifæri til þess að keppa á stórmóti. Þau eru ekki á hverjum degi."
Ennis-Hill segist hafa reynt að pína sig í gegnum sársaukann en hún hafi þurft að horfast í augu við þá staðreynd að keppni væri útilokuð.
„Það er kominn tími til þess að hætta að reyna að koma mér í stand og leita að orsök meiðslanna."

