Íslenskir knapar og hross rökuðu inn verðlaunum á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk í Berlín í gær.
Jóhann Skúlason og Hnokki frá Fellskoti höfðu mikla yfirburði í töltinu og tryggðu sér heimsmeistaratitilinn. Þetta var í sjötta skipti í röð sem Jóhann vinnur til gullverðlauna í greininni en hann hefur hlotið tíu gullverðlaun á ferli sínum.
Konráð Valur Sveinsson varð tvöfaldur heimsmeistari í flokki ungmenna. Konráð Valur vann sigur í 100 og 250 metra skeiði á hryssunni Þórdísi frá Lækjarbotnum. Konráð Valur lék við hvurn sinn fingur og minnti á eftir sigurinn í síðari greininni að hann væri einhleypur.
Magnús Skúlason varði heimsmeistaratitil sinn á Hraunari frá Efri-Rauðalæk. Magnús keppir þó fyrir Svíþjóð en hann er búsettur ytra.
Þá fékk Bergþór Eggertsson verðlaun fyrir fyrirmyndarreiðmennsku. Bergþór varði heimsmeistaratitil sinn í 250 metra skeiði á Lótusi frá Aldenghoor.
Íslenska landsliðið varð stigahæsta liðið á mótinu og fékk veglegan og níðþungan bikar að launum.
Myndasyrpu frá verðlaunum á lokadegi mótsins og lokaathöfninni í Berlín má sjá í flettiglugganum hér að ofan.
Fleiri gullverðlaun og Ísland stigahæsta liðið | Myndasyrpa

Mest lesið



Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn



Njarðvík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld
Íslenski boltinn



