Skoðun

Vin­gjarn­legir veitinga­staðir

Sigursteinn Másson og Rannveig Grétarsdóttir skrifar

Hátt í sextíu veitingastaðir á Íslandi hafa nú límmiða við innganginn þar sem á stendur: Whale Friendly – We don"t sell whale meat. Skilaboðunum er ætlað að vera upplýsandi fyrir mögulega gesti veitingastaðanna sem margir vilja heldur snæða þar sem hvalkjöt er ekki á boðstólum. IFAW-samtökin og Hvalaskoðunarsamtök Íslands standa sameiginlega að verkefninu.



Talsmaður hrefnuveiðimanna hefur brugðist illa við og sagt þetta vera atvinnuróg. Víða um bæinn má sjá regnbogafánann í gluggum veitingastaða auk áletrunarinnar Gay Friendly. Það er yfirlýsing viðkomandi staða um að samkynhneigðir séu velkomnir. Ef Whale Friendly er atvinnurógur gagnvart hvalveiðum, hvaða atvinnurógur felst þá í merkingunni Gay Friendly? Gagnrýnin er fráleit.



Staðreyndin er sú að með því að merkja sig vingjarnlega gagnvart hvölum eru viðkomandi veitingastaðir einfaldlega að veita viðskiptavinum sjálfsagðar upplýsingar.



Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað ályktað gegn hvalveiðum. Hrefnuveiðar, sem eru afar lítil atvinnugrein, hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og heildarhagsmuni Íslands. Hver og einn veitingastaður setur Whale Friendly-merkimiða við innganginn á eigin forsendum. Sumir eru andvígir hvalveiðum, aðrir vilja einfaldlega upplýsa viðskiptavini sína um að þessi afurð sé ekki á þeirra matseðlum.



Það þarf kjark og sjálfstraust til að rísa upp gegn hinum viðteknu ranghugmyndum um ágæti hrefnuveiða við Ísland. Fleiri og fleiri eru að átta sig á því að veiðarnar eru misheppnaðar og eiga sér enga framtíð, enda lýstu hrefnuveiðimenn því sjálfir yfir við upphaf atvinnuveiðanna árið 2006 að þeim yrði sjálfhætt ef ekki fyndust erlendir markaðir. Þeir eru hvergi og ekkert sem bendir til að það breytist. Það væri því nær að menn horfðust í augu við raunveruleikann í stað þess að atast í veitingamönnum sem hafa kjark og vilja til að sýna samstöðu með ferðaþjónustunni í landinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×