Akureyringurinn keppti fyrir bikarlið Norðurlands á mótinu. Hún heldur áfram að fara á kostum á innanhússtímabilinu en Hafdís vann 60 metra hlaupið, langstökkið og var í sigursveit Norðurlands í 4x400m boðhlaupi.
Í 60 metra hlaupinu kom hún á undan Hrafnhild Eir Hermóðsdóttur úr ÍR í mark eins og á stórmóti ÍR á dögunum en þegar litið er á tímaseðil mótsins á heimasíðu FRÍ kemur ekki fram hversu hratt hún hljóp.

Eina sem stendur er: „enginn tími.“ „Ég hef ekki fengið neinar skýringar á þessu. Tímatakan fór bara ekki í gang. Við hlupum bara okkar hlaup og svo var kíkt á markmyndina til að fá það á hreint hver lenti í hvaða sæti,“ segir Hafdís í samtali við Vísi.
Tíminn skipti ekki öllu máli fyrir mótið sjálft því aðeins sæti í hverri grein telja til heildarárangurs hvers lið. En Hafdís var þó svekkt með að vita ekki nákvæmlega hversu hratt hún hljóp.
„Þetta var góður tími,“ segir hún en þjálfari hennar er búinn að skoða myndbandið og taka tímann eftir því. Svo gæti verið að um Íslandsmet hafi verið að ræða.
„Við vitum ekki hver tíminn var nákvæmlega. Þetta hefði getað verið met. Þjálfarinn minn kann að reikna þetta út og hvernig maður plúsar viðbragðið við og svona. Ég vil ekkert gefa út um að þetta sé met en svo gæti hafa verið.“
„Þetta var allavega alveg ótrúlega sárt og ég veit bara ekki hvort ég jafni mig á þessu,“ segir Hafdís en svona mistök í tímatöku hafa komið fyrir áður. Oftast þegar tíminn fer ekki í gang eru hlauparar stöðvaðir og hlaupið ræst aftur.

„Þetta gerist stundum. Ég hef lent í þessu áður. En þetta er rosalega slæmt í 60 metra hlaupi. Ef þetta gerist í lengri hlaupum er hægt að stöðva keppendur en ekki í 60 metrum því hlaupið er svo stutt. Svo er svo stuttur tími á milli greina á mótinu líka þannig við þurftum að halda áfram,“ segir Hafdís.
Þessi flotta frjálsíþróttakona sem nýverið bætti Íslandsmetið í langstökki er samt sem áður ánægð með árangurinn um helgina og stefnir á sitt besta sumar á ferlinum.
„Ég er rosalega ánægð með gengið um helgina. Ég átti fína seríu í langstökkinu. Þar stökk ég nokkrum sinnum yfir sex og tuttugu og var mjög stöðug. Ég er ekki orðin södd ennþá. Brátt fer ég æfa fyrir sumarið og ég stefni á að toppa síðasta sumar sem var alveg frábært,“ segir Hafdís Sigurðardóttir.