Í þættinum er fjallað um almennar íþróttir sem fólk stundar og farið yfir þann búnað sem mælt er með fyrir þær. Einnig hvernig þjálfun er æskileg til að ná betri árangri og koma í veg fyrir meiðsli.
Í Léttum sprettum er lögð áhersla á næringu og kynningu á hinum helstu næringarefnum. Hvað eru t.d. kolvetni, D-vítamín og prótín? Í lok hvers þáttar er svo matreiddur hollur réttur sem er stútfullur af næringarefnum.
Í fyrsta þætti voru það dásamlegir, bráðhollir og bragðgóðir orkubitar sem einfalt er að búa til og tilvaldir í nestistöskuna eða þegar sætindalöngunin gerir vart við sig.

250 g döðlur
50 g ósætt kakó
60 g chia fræ
1 msk kókosolía
1/2 tsk kanill
5-6 karamellu Stevíu dropar
50 g saltaðar makadamíuhnetur, saxaðar
50 g pekanhnetur, saxaðar
50 g þurrkuð trönuber
1/2 tsk rifinn appelsínubörkur
örlítið sjávarsalt
50 g kókosmjöl
Maukið döðlurnar í matvinnsluvél, bætið kakói, chia fræum, kókosolíu, kanil og vanilludropum saman og blandið vel.
Handhrærið hnetunum, trönuberjunum, appelsínuberkin og saltinu saman við og mótið litlar kúlur. Veltið kúlunum upp úr kókosmjöli og kælið.
