„Ég held mig við minn stíl og hef ekki sótt innblástur til annarra íslenskra hönnuða en það hafa að sjálfsögðu margir verið að teikna með sugar-owl- og aztec-stílnum.“ Erna Kristín selur verk sín undir nafninu Stín á Facebook en hún hefur verið að teikna ýmislegt annað með pennanum. Í barnaherbergin hafa kanínur, pandabirnir og fílar meðal annars verið vinsæl en nýjasta verkefnið eru uglur á bolla undir te eða kaffi.
Erna Kristín er að læra guðfræði við Háskóla Íslands og býr á Selfossi. Hún segir að oft geti verið áskorun að fara á milli yfir háveturinn en að allt sé mögulegt sé viljinn fyrir hendi. „Ef maður er í skemmtilegu námi er maður ekkert að pæla í þessari heiði, maður fær sér bara gott kaffi og hlustar á tónlist og þá er maður kominn á leiðarenda.“
Áhuginn á listinni hefur alltaf verið til staðar en Erna Kristín hefur einungis tekið tvo teikniáfanga í myndlistarskólanum og segir þetta aðallega vera dund sem hún þó óskar að stækka, selja í fleiri búðum og jafnvel flytja verkin út fyrir landsteinana.
„Ég er ekki bara að horfa á Ísland því ég er búin að selja verk til Rómar, Kaupmannahafnar og Finnlands.“
Hér á landi fást verkin hennar í versluninni Kauptúninu á Akureyri, Kaupstaður.is og undir Stín á Facebook.
