Mercedes menn voru lang fremstir á fyrri æfingunni. Hamilton var fjórum tíundu úr sekúndu á undan liðsfélaga sínum Nico Rosberg.
Lotus ökumaðurinn Romain Grosjean var þriðji á eftir Mercedes, Nico Hulkenberg á Force India var fjórði og Sebastian Vettel á Ferrari fimmti. Vettel var jafnframt fremsti ökumaðurinn sem ekki notar Mercedes vél, Vettel var næstum 1,7 sekúndum á eftir Hamilton.
Hamilton var eini ökumaðurinn sem komst undir eina mínútu og sextán sekúndur. Vettel varð annar á seinni æfingunni og var tæpum þriðjung úr sekúndu á eftir Hamilton.
Kimi Raikkonen á Ferrari varð þriðji og Rosberg á Mercedes fjórði. Pastor Maldonado varð fimmti á Lotus.
Ferrari virðist hafa mætt með nokkuð uppfærða vél. Vélarafl er gríðarlega mikilvægt í Kanada. Tímatakan á morgun gæti orðið afar spennandi og aldrei að vita hvort Lotus blandi sér jafnvel í baráttuna.
Bein útsending frá tímatökunni hefst á Stöð 2 Sport 3 klukkan 16:50 á morgun. Keppnin er í beinni útsendingu sem hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17:30 á sunnudag.