Manor liðið í Formúlu 1 endurhugsar nú áætlun sína um að kynna nýjan bíl á tímabilinu. Hugsanlega verður hann ekki kynntur fyrr en á næsta tímabili.
Endurreisn Manor átti sér stað á afar stuttum tíma og liðinu tókst á ótrúlega stuttum tíma að aðlaga gamla Marussia bílinn að nýjum reglum og koma honum á braut. Ætlunin var svo að koma með mikið endurbættan bíl sem allra fyrst á tímabilinu.
Nú er staðan sú að liðið telur líklegt að bíllinn líti ekki dagsins ljós fyrr en á næsta ári. Ákvörðunin veltur á því að liðinu tekst ítrekað að halda sig innan 107% frá hraðasta tíma hverrar tímatöku. Liðið telur að 107% reglan muni ekki valda þeim vandræðum á tímabilinu.
107% reglan felst í því að ökumenn verða að setja tímatökuhring innan við 107% frá hraðasta tíma þeirrar tímatöku til að vera gjaldgengir í keppni. Undantekningar á þessu eru þegar ökumenn hafa sett samkeppnishæfan tíma á æfingum en lenda svo hugsanlega í því að bíllinn bilar í tímatökunni.
„Við horfum á heildar myndina, þetta er allt opið og ekkert meitlað í stein. Við leitum að rétta svarinu og þegar við finnum það þá verður það leiðin sem verður farin. Það er rétt að nefna að sumt af því fólki sem hefur áhrif á ákvörðunina er rétt að byrja að starfa hjá okkur,“ sagði Graeme Lowdon, liðsstjóri Manor.

