„Upphafið að þessu ævintýri varð í vor þegar kærastinn minn bauð mér með sér hingað í vinnuferð. Ég var nýbúin að halda stóra sýningu í Hörpunni og leit á þetta sem frábært tækifæri til þess að skoða framleiðslumöguleika svo ég tók með mér slatta af prótótýpum úr sýningunni og lét sauma fyrir mig endurgerðir sem heppnuðust frábærlega.“
Þó svo tíminn hafi verið ansi knappur, og Ýri hafi ekki tekist að láta framleiða línuna sína, hljóp sannarlega á snærið hjá henni, því í þessari ferð kynntist hún Inke Guðmundsson, sem er framkvæmdastjóri Chinese- European Art Center.
„Hún varð svo hrifin af athafnaseminni í mér og bauð mér að koma og vera listamaður hjá sér og halda sýningu í galleríinu sínu,“ útskýrir Ýr og skýtur því að, að eðlilega hafi hún ekki vílað fyrir sér að bregða sér aftur hálfa leið yfir jarðarkringluna og dvelja næstu fjóra mánuðina í Xiamen.

„Frá því ég kom hefur mér tekist að mynda tengsl við ótrúlega flotta hönnuði hérna og það er skemmtileg tilviljun að fyrir tæpum mánuði var opnuð formlega fyrsta „collage“-hönnunarbúðin hérna, Arkipelago, með tíu ungum hönnuðum í Xiamen og er listagallerí á efstu hæðinni. Þetta er ekki ólíkt því sem ég tók sjálf þátt í á Íslandi þegar við tókum okkur saman nokkrir hönnuðir og opnuðum Kiosk, nema þetta er tíu sinnum stærra,“ segir Ýr og bætir við létt í lundu: „eins og reyndar allt í Kína.“

„Ég vonast til að áhugamenn um listamenn og frumkvöðlastarf sjái sér fært að styrkja mig í þessu verkefni. Reyndar koma saumavélin og efnin mér ansi langt og ég er alls ekki frá því að ég muni halda hér stórkostlega sýningu sem verður undir sterkum asískum áhrifum, einhvers konar blöndu þess evrópska og asíska, hvernig sem allt fer. Ég ætla að heilla Kínverja upp úr skónum,“ segir Ýr himinlifandi að lokum.