Volkswagen Group hefur óskað eftir því að viðbótarálagning á skatta og gjöld vegna rangrar skráningar mengunarefna í útblæstri ökutækja frá Volkswagen muni falla á fyrirtækið en ekki eigendur þeirra bíla sem um ræðir.
Þetta kemur fram í erindi sem Matthias Müller, forstjóri Volkswagen Group, hefur sent Bjarna Benediktssyni, fjármála- og viðskiptaráðherra, en ráðuneytið hefur að undanförnu haft til skoðunar áhrif rangrar skráningar mengunarefna í útblæstri ökutækja frá Volkswagen, annars vegar á innflytjendur ökutækjanna og hins vegar á eigendur þeirra.
Sjá einnig: Skoða vörugjöld vegna Volkswagen
Við álagningu vörugjalds og bifreiðagjalds á ökutæki er m.a. tekið mið af magni koltvísýrings í útblæstri. Tollstjóra er heimilt að endurákvarða gjöld allt að sex ár aftur í tímann. Ef útblástur bíla hefur verið ranglega skráður þá má innheimta vanreiknuð gjöld.
Volkswagen Group hefur því óskað eftir því að öllum viðbótarkröfum sem skattayfirvöld hyggjast leggja á skatta og gjöld vegna þeirra bíla sem um ræðir falli á fyrirtækið. Volkswagen hyggst leiðrétta ranga skráningu á koltvísýringsútblæstri bifreiðanna og upplýsa skattyfirvöld um þær breytingar sem gerðar verða.
Sjá einnig: Svona svindlaði Volkswagen
Samkvæmt upplýsingum frá Heklu, umboðsaðila Volkswagen á Íslandi, mun þetta mál hafa áhrif á útreikninga opinberra gjalda hér á landi vegna 432 bíla.
Volkswagen-hneykslið hefur haft mikil áhrif á fyrirtækið. Skipt hefur verið um stjórnendur og hlutabréf Volkswagen hafa hríðfallið í verði. Málið snýst um að ákveðnar tegundir voru útbúnar sérstökum svindlhugbúnaði sem gerði það að verkum að útblástur mældist minni í mælingarprófum en hann var í raun og veru.
