„Ég er ánægður að hafa getað stjórnað keppninni og að Lewis (Hamilton) hafi aldrei fengið tækifæri. Ég var bara að spara dekkin og fara varlega, ég var ekki að glímavið nein vandræði,“ sagði kátur Rosberg á verðlaunapallinum.
Rosberg er fyrstur til að vinna tvær keppnir í Brasilíu í röð síðan Juan Pablo Montoya gerði það 2004 og 2005.
„Það er ekki hægt að taka fram úr hérna. Ég skil ekki hvernig aðrir taka fram úr hérna. Það var frekar leiðinlegt að elta alla keppnina. Nico hefur staðið sig vel vel hann ók frábærlega í dag,“ sagði Lewis Hamilton á verðlaunapallinum, hann varð annar.
„Ég var að vona að ég fengi tækifæri í ræsingunni en það gerðist ekki. Ég var hálf einmanna í keppninni. Þeir voru of snöggir í dag en við vorum nær í lokin en nokkurtíman áður held ég,“ sagði Sebastian Vettel á verðlaunapallinum, hann varð þriðji.
„Þetta var góð keppni á milli okkar manna. Ferrari þvingaði okkur til að taka þrjú þjónustuhlé,“ sagði Paddy Lowe, tæknistjóri Mercedes.
Það er áhugavert merki um að Ferrari sé að nálgast Mercedes að Mercedes finni þörfina til að breyta keppnisáætlun sinni til að verjast Ferrari. Það lofar góðu fyrir þá sem vilja sjá Mercedes fá meiri samkeppni á næsta ári.

„Við vorum nær stigum en við bjuggumst við, ekki nema 12 sekúndum frá tíunda sæti,“ sagði Jenson Button ökumaður McLaren sem varð 15.
„Það var forgangsatriði að komast í mark. Bíllinn var ekki góður samt það var mismunandi afl í mismunandi gírum. Það var skrýtið að keyra bílinn,“ sagði Fernando Alonso ökumaður McLaren, hann varð 16.
„Þetta var keppni til að gleyma, ég er ekki kátur. Frammistaða mín var ekki í takt við ótrúlegan stuðning sem ég fékk hér frá áhorfendum,“ sagði Felipe Massa, heimamaðurinn á Williams bílnum sem endaði í áttunda sæti.
Massa þarf að fara til dómara keppninnar til að útskýra af hverju eitt af dekkjum hans var rúmlega 30°C heitara en það má vera. Dekkjateppið virtist bila. Líklega verður honum ekki refsað fyrir atvikið því of heitt dekk flýtir ekki fyrir ökumönnum.