Hugmyndin að sýningunni kemur frá Jóni Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra, sem fannst ómögulegt að hvergi væri hægt að sjá handritin, hinn dýrmætasta menningararf þjóðarinnar, eftir að handritasýningunni í Þjóðmenningarhúsinu lauk.
Sýningarhönnuður er Gabríela Friðriksdóttir en Guðrún Helga Stefánsdóttir, verkefnisstjóri Borgarsögusafns, er á meðal þeirra sem unnið hafa að undirbúningi sýningarinnar að undanförnu. „Handritin eru meðal merkustu verka Íslendinga. Þau veita okkur innsýn í líf og hugsanir Norðurlandabúa og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar.

Þá voru efni sýningarinnar einnig gerð skil með hjálp margmiðlunar og það er einkar forvitnilegt fyrir fólk að tefla saman þessum tveimur heimum; margmiðlun og handritunum sem gefur nú að líta í einni sýningu.
Handritin eiga erindi við alla heimsbyggðina og eru ómetanlegur hluti af menningararfi veraldar og eru sem slík á heimsminjaskrá UNESCO. Það þarf því ekki að koma á óvart að það er ströng öryggisgæsla á sýningunni. Það ánægjulega við það er að við getum lengt opnunartíma sýningarinnar í heild og frá og með sunnudeginum verðum við með opið frá kl. 9–20 alla daga.
En svo bíðum við auðvitað spennt eftir því að Hús íslenskra fræða verði að veruleika svo við getum sýnt þjóðinni allar þær gersemar sem eru í hennar eigu.“