Á sýningunni verður sýnt úrval samtalsverka Sigfúsar Eymudssonar og Einars Fals, að hluta ný prent eftir glerplötum Sigfúsar en einnig valin frumprent frá 19. öld, þegar myndirnar voru teknar. Um er að ræða fágæta dýrgripi í eigu Ljósmyndasafns Íslands sem afar sjaldan sjást.
Einar Falur er fæddur árið 1966 en Sigfús árið 1837 og Einar segir Sigfús hafa verið á réttum stað á réttum tíma. „Hann myndaði staði sem við þekkjum vel í dag, en þá var enginn annar búinn að festa þá á filmu. Hann skapaði fyrstu myndirnar af mörgum þessara staða, sem í dag eru orðnir að klisjum, og því finnst mér mikilvægt að rifja upp hans framlag,“ segir Einar.

Orðinn hluti af fjölskyldunni
Þegar Einar Falur talar um Sigfús er líkt og hann sé að tala um lifandi mann, en Sigfús lést árið 1911. Spurður að því hvort hann upplifi bein tengs við Sigfús segir Einar svo sannarlega vera.
„Hann er orðinn hluti af fjölskyldunni. Ég hef í mörg ár verið á ferðalagi með Sigfúsi, hann hefur verið fararstjóri minn í aftursætinu, leiðbeint mér hvar ég ætti að staldra við og mynda. Handritið mitt hefur verið í framsætinu, þar sem ég greini verk hans og reyni að skilja hvernig hann horfði á heiminn. Ég hef bæði endurtekið sjónarhorn hans og fundið mín eigin og stundum verið ánægðari með þau,“ segir Einar Falur.
„En þetta verkefni snýst ekki bara um Sigfús, heldur líka um tímann, söguna og hvernig við mótum landið okkar. Mér finnst mikilvægt að skoða hvernig við umgöngumst náttúruna, hvernig við skiljum við hana, og hvernig ljósmyndir verða að hluta af okkar sameiginlegu minni.“

Fimm ár í bígerð
Hugmyndin af sýningunni segir Einar hafa kviknað fyrir löngu síðan, fimm ár séu frá því að hann byrjaði markvisst að rannsaka, mynda og þróa verkefnið. En samhliða sýningunni gefur Þjóðminjasafnið út bókina Aftur – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar, með rúmlega 130 ljósmyndum ásamt texta eftir Einar Fal.
Samtal við Sigfús er hluti af stærri rannsókn Einars Fals á verkum listamanna fortíðar. „Ég lít á öll verkefnin mín sem hluta af stærra samhengi. Þetta er eins konar þríleikur þar sem ég hef áður kallast á við verk Collingwoods og Larsens. Það er ákveðin samfella í öllum mínum sýningum og bókum, þær tala saman. Það sama á við hér, en að þessu sinni hef ég farið í beina myndrýni á verk Sigfúsar og jafnframt reynt að endurtaka sum sjónarhorn hans – og finna ný.“
Spurður að því hvort hann eigi uppáhaldsmynd á sýningunni segir Einar Falur svo ekki vera, hann hugsi ekki um verk sín á þeim forsendum. „Ég reyni alltaf að sjá sýninguna sem eina heild. En mér finnst áhugavert að heyra hvað gestir hafa að segja, hvaða myndir höfða til þeirra og hvers vegna. Ég þarf sjálfur að lifa lengi með myndunum áður en ég get tekið endanlega ákvörðun um hvaða verk fá að halda áfram í bók eða á sýningu, og hvaða myndir verða einfaldlega lagðar til hliðar.“
