Menning

Hendur sem káfa, snerta og breyta

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Myndlistarkonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýninguna Handleikið í SÍM húsinu næstkomandi fimmtudag.
Myndlistarkonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýninguna Handleikið í SÍM húsinu næstkomandi fimmtudag. Aðsend

Myndlistarkonan Ragnhildur Jóhanns sérhæfir sig í einstaklega grípandi og líflegum málverkum sem vekja upp ýmsar tilfinningar hjá áhorfendum. Hún á afmæli næstkomandi fimmtudag og fagnar deginum með því að opna sölusýningu.

Ragnhildur er fædd árið 1977 og fagnar því 48 árum á opnuninni. Hún hefur komið víða við á sínum ferli, sett upp margar sýningar og gefið út fjölda bókverka. 

Kyrralífsverk Ragnhildar vekja upp öðruvísi tilfinningar með tilkomu handarinnar.Aðsend

Síðastliðna fimmtán mánuði hefur hún unnið hörðum höndum að þessari átján verka einkasýningu sem haldin verður í SÍM húsinu að Hafnarstræti 6.

Listakonan Ragnhildur Jóhanns opnar sýningu á fimmtudag og á einmitt afmæli þá.Aðsend

Í fréttatilkynningu segir:

„Málverkaseríuna Handleikið má kalla klassískt kyrralíf. Hefðbundið uppstillt viðfang, vandlega útfært og með djúpri virðingu fyrir hefðinni en við nánari athugun afhjúpast óvænt hreyfing inn í formfast kerfið. Mannleg snerting, þar sem hendur birtast og umbreyta hinu sígilda myndformi. Kyrralífið rofið.

Kyrralífsmyndir hafa í gegnum aldirnar verið táknmynd fegurðar, upphafning hversdagslegra hluta og hinnar óhagganlegu reglu listarinnar. Í verkum Ragnhildar er kyrrðin ekki algild, ekki einungis spegilmynd hinnar fullkomnu reglu, heldur vettvangur mannlegrar íhlutunar, handa, sem spretta fram úr tóminu og káfa, snerta og breyta.

Höndin, þessi óvænti innrásaraðili í kyrrðina, verður sögn um líf og óreiðu. Því fastar sem verk Ragnhildar halda í hina klassísku fagurfræði og hefð, því skýrari verður truflunin og myndun spennuþrunginna andstæðna, milli hinnar skipulögðu fegurðar og mannlegrar óreiðu sem blæs lífi í atburðarás verkanna.

Áhorfandinn er dreginn inn í heim þar sem snerting skapar tengingu, þar sem höndin bætir við nýrri frásögn í kyrralífsmyndina, býður okkur að taka þátt, að finna mennskuna í miðri kyrrðinni. 

Hún vekur okkur til umhugsunar um hvers vegna við endurtökum hið kunnuglega, hvers vegna við snertum, hvers vegna við þráum tengingu og hvers vegna, í raun, það er aldrei óþarfi að hugsa eitthvað upp á nýtt.“
Lífleg, litrík og áhugaverð verk.Aðsend





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.